sábado, 10 de septiembre de 2011

Kæru lesendur

Það er mér hjartanleg ánægja að bjóða þér/ykkur velkomin á þetta forláta/ljóta blogg okkar Elínar. Við tókum þá skynsamlegu ákvörðun að vera saman með blogg því þá getum við fært okkar elskulegu lesendum sýn inní tvær heimsálfur á einni og sömu internetsslóðinni! Plús það að sem stakir einstaklingar myndum við ekki fullnægja blogglesningaþörf meðal íslendings en sem Dúó/teymi/ein manneskja ættum við að ná að halda athygli ykkar næstu 3 mánuðina. Til að allir séu með allt á hreinu þá er ég (Ellen Björg) í Sevilla á Spáni á tungumálanámskeiði en held til Valencia 2. oktober til að fara vinna á Hosteli fram að 17. desember. Elín Björk er hinsvegar að fara sinna öllu mikilvægari málefnum í austurhluta Afríku, nánar tiltekið Tanzaníu,nánar tiltekið rétt við landamæri Kenía, þar sem hún mun vinna í hinum ýmsu verkefnum og heyrst hefur að hún sé komin með viðurnefnið ''Hvíta Vonin'' og hún er ekki einu sinni komin á staðinn, vel gert Trélím! Ég efast ekki um að hún útskýri þetta betur þegar hún gefur sér tíma til að blogga þessi elska.

Ég kom til Sevilla mánudaginn 5. september eftir dásamlega 11 daga ferð til Kúbu (sem ég ætla næstum að lofa að við skrifum um seinna meir) með afar bólgin fót.

 
                                                             Ein mynd frá Kúbu samt!                                        

 Hann var reyndar orðin tvöfaldur í Kúbufluginu og tilfiningalaus á lestarstöðinni í London en þar sem við vorum tæp á tíma í London þorði ég ekki að kíkja til læknis þar og saug uppí nefið (var með nefrennsli sko, græt aldrei) og hoppaði á einum fæti uppí taxa og út á flugvöll í London. Hoppaði þar i gegnum tékkið og vegabréfaeftirlitið. Hoppaði í gegnum málmskannan og fékk píp á mig og indæla konan með handskannan setti mig hiklaust upp á koll til að geta örugglega skannað mig frá toppi til táar og áður en hún byrjaði að þukla mig var hún samt svo kurteis að spurja hvort ég væri nokkuð eitthvað slösuð áður en hún byrjaði að kreista mig. Ég horfði niður á fótinn tvöfalda sem var ekki einu sinni í skó og sagðist finna aðeins til í fætinum. Dýrlingurinn sem hún var sleppti hún því að þukla hann....fast. En jæja komst lifandi í gegnum þetta flug, náði að sofa ágætlega í fluginu því ég svaf bara 4 mín. í 10 tíma kvöldfluginu frá Kúbu. Þegar ég lenti í Sevilla fór ég og hitti Agnesi og Jökul ( vinkona mín og kærstinn hennar sem eru með mér í þessu sama verkefni á Spáni) sem voru þegar komin til Spánar og við fórum beint upp á sjúkrahús. Þar tók við afar skemmtileg og löng bið þar sem maður þurfti að fara þvílíka krókaleið til að lenda loksins hjá einhverjum sem gat gefið manni svar. Ég fékk samt hjólastól sem var sjúklega fínt, aðalega því hann var appelsínugulur og því í stíl við nýju sólgleraugun mín en plús það þá fékk ég líka tvær röntgen myndir af fætinum á mér(tók þær með heim). Ég sagði þeim samt að ég væri ekki brotin en þeir sögðu að ég hafi verið að misþyrma fætinum svo mikið síðustu sirka 20 tíma að ég gæti hafa brotið einhver lítil bein bara á að labba á honum svona slæmum. En þegar öllu var á botnin hvolft (tók já 5 tíma, 2 röntgenmyndir 5 mismunandi lækna að segja ''ojj'' við að sjá fótinn á mér) kom í ljós að þetta var bara álagsmeiðsl á háu stigi. Ég var í eitthvað lélegum skóm á Kúbu og við löbbuðum rosalega mikið þar og ég hlífði aldrei fætinum svo bólgan sem myndaðist hægt og sígandi á Kúbu fékk aldrei að hjaðna eða eitthvað álíka. Ég fékk krem og 4 verkjatöflur með heim og skipun um að vera rúmliggjandi næstu daga.Svo næstu dagar einkenndust af rólegheitum, svefni og yndislegri þjónustulund meðleiganda minna. Við erum 4 saman í íbúð með 6 herbergjum,eldhúsi og klósett. Ég, Jökull,Agnes og strákur frá Selfossi sem heitir Tolli og er í sama verkefni. Rosalega kósý íbúð á jarðhæð og konan sem á hana á heima fyrir ofan okkur, megahress!
Á miðvikudeginum ákvað ég að halda samt á stað í skólann. Við Jökull erum saman á byrjendanámskeiði en Agnes er í annarri byggingu 5 min. frá okkar því hún var búin að taka einn áfanga í spænsku og er í rauninni bara hársbreidd frá því að vera ein af heimamönnum.
Við Jökull erum með fyrirtaks kennara sem heitir Agri (kona) sem talar bara spænsku sem er svolítið flókið en verður betra og skiljanlegra með hverjum tímanum sem líður. Við erum í sirka 10 manna bekk með fólki á ýmsum aldri og þjóðerni. T.d. má nefna sænsku fimmtugu hjónin Kent og Elizabet, finnska stelpu sem er örugglega svona 30-35 ára sem heitir Mia (sem er mjög auðvelt að muna, takk Finnland fyrir að gefa okkur múmínálfanna). Svo eru tvær franskar á fertugsaldri, einn 19 ára ástrali sem er keimlíkur kóalabirni ef maður gefur sér tíma og ýmindunarafl, 19 ára japönsk stelpa og einn hollendingur. Spænskukennslan gengur ágætlega, í fyrsta tímanum skildi ég ekki neitt en svo er þetta koma hægt og sígandi og við erum dugleg að glósa og læra heima líka.
Á fimmtudaginn fór stór hluti af námskeiðinu (öll styrkleikastigin) saman út að borða Tapas og þar hitti ég líka hinar íslensku stelpurnar sem eru á þessu námskeiði en samtals erum við svona 6 íslendingar og ein stelpa af þessum stelpum á eftir að vinna með mér í Valencia, kemur samt í nóvember en samt mjög fínt. Við fengum rosa fínan mat, miðað við að við giskuðum eiginlega bara á hvað hlutirnir þýddu á matseðlinum og eftir á fór hópurinn allur á einhvern bar þar sem við vorum að spjalla og kynnast aðeins. Síðan í gær, föstudag, hittumst við aftur á bar niðrí bæ og ætluðum að finna stað til að dansa aðeins en kemur á daginn að Sevillabúar dansa voðalega lítið. Í rauninni standa þeir bara  fyrir UTAN barina og tala saman og drekka bjór, eins og þeim sé bara bannað að tala saman á daginn. Þeim finnst voðlega skrítið ef einhver fer að dansa,þ.e. ef það er einhver tónlist á þessum börum, sem er mjög sjaldan. Eftir föstudagsvonbrigðin ákváðum við að hafa bara video-kvöld í kvöld og horfðum á spænska mynd (alltaf að læra mamma) en það fór einhver hópur krakka yfir ánna og ætlaði að athuga hvernig dansmenningin (ef svo skyldi kalla) væri þar svo við gætum komist til botns í þessu dansleysis ráðgátu eftir helgi.
    Svo er það bara rólegur sunnudagur á morgun, eflaust eitthvað litið í bækur ( tek sjaldan frí frá náminum mamma mín) og rölt um bæinn. Svo bara skólavika númer tvö á mánudaginn með nýjum og spennandi málfræðiatriðum að læra!

Þetta er orðið svo miklu lengra en ég ætlaði að láta þetta vera en vonandi hafi þið gaman af =)

Hafiði það gott elsku vinir!

35stiga heit kveðja frá Sevilla

Ellen
                                                            Leyfum Diddu að eiga síðasta orðið bara..

1 comentario:

  1. Tu eres mucho bueno mio hermana! vúhú ekkert google translate sko! Er að fíla þessa blogghugmynd alveg í tætlumr! Hlakka til að geta fylgst með þér hérna, enda ertu afbragðsgóður penni kæra systir!

    ResponderEliminar