Ef ég myndi biðja ykkur um að loka augunum og ýminda ykkur svip sem einhver gerir sem hræðir ykkur sjúklega mikið, hvern mynduð þið sjá fyrir ykkur?
Undir öllum venjulegum kringumstæðum myndi ég persónulega svara þessari laufléttu spurningu með ''Reiðissvipurinn hennar Árnýjar systur''. Hann lýsir sér einfaldlega þannig að þegar við vorum á aldrinum 10-14 ára sirka (þetta hefur nu alveg gerst síðan samt) átti ég það til að fara eitthvað í hennar fínustu taugar þannig að hún hálf sturlaðist. Þá var eins og eldglæringar kæmu frá augunum hennar og hún rúllaði tungunni einhvernveginn uppí sér og beit í hana eins og hún væri að líka eftir því að fara bíta einhvern líkamspart af mér, eða hluta af honum allavega. En núna er annað uppá teningnum því á þriðjudaginn síðasta fórum við á Flamengósjó. Elfa Lilja, minn tengiliður við skemmtanalíf Sevilla hafði bent okkur á þennan stað sem er rétt hjá skólanum okkar og við fórum saman, Ég,Agnes,Jökull,Halla og Þórdís og svo hittum við fleiri þar úr skólanum. Ég hafði aldrei farið á svona sjó áður svo ég vissi í rauninni ekkert hvað væri að fara gerast og svo var lika þriðjudagur svo ég var ekki að búast við neinu. Þetta var í nokkursskonar skemmu (samt ekkert skemmu en ekki samt svona sal þið skiljið) og þar var svið og uppá sviðinu sátu þessi þrjú
Þetta byrjaði á því að þau byrjuðu að sussa á lýðinn til að fá hljóð því þau voru ekki með hljóðkerfi eða neitt og húsið var stappað af fólki, ég giska á 100 manns. Svo byrjaði gítarleikarinn að spila (hann var sjúklega góður en var svolítið á svipinn eins og hann væri gjörsamlega ekkert að nenna þessu) og síðan byrjaði folinn í miðjunni að syngja en samt eiginlega ekki að syngja heldur að gráta.Hann söng alveg frekar vel en hefði ég verið þarna með söngskólagenginni systur minni hefði hún bent á að hann væri ekki að nota þyndina mikið eða eiginlega bara ekki neitt. Æðarnar hans, sem voru hársbreidd frá því að springa, tútnuðu út eins og um bjúgnagerð væri að ræða og tárin byrjuðu í alvörunni að leka niður vangana hans. Ekki kannski leka í stríðum straumum en hann var sjúklega tilfiningaríkur allavega. Og á meðan öllu þessu stóð sat ungfrúin hliðina á honum og klappaði í fimlegum takti. Hún var með þann allra alvarlegasta svip sem ég hef nokkurntíma séð get ég sagt ykkur. Hún gjörsamlega frysti mann með augnaráðinu og hún hræddi mig meira á þessu eina mómenti sem hún horfði í augun á mér en Árný gerði í allri okkar barnæsku. Mér líkaði alls ekki við hana fyrst. En svo þegar hún stóð upp seinna um kvöldið og byrjaði að dansa/stappa þá breytist það samt klárlega. Þvííííílíkur taktur hjá gömlu maður, ég sá oft ekki fæturnar hreyfast en samt heyrði maður þvílík stöpp (eitt stapp, mörg stöpp)
Svo þegar hún var búin að taka þvílíkt stappsóló þá trylltist salurinn, allir stóðu upp og voru klappandi og kallandi, sjúklega mikil stemming þarna, fáránlega gott kvöld!
Aqua de Sevilla, drykkur sem Elfa hvatti okkur til að prófa
Annars var skólavikan mjög skemmtileg og fræðandi, fengum nýjan kennara sem heitir Maria og er vægast sagt hress. Hún gengur inní stofuna og dettur beint í hlutverk og er alltaf út um allt og ótrúlega aktív og lætur mann langa virkilega að vita hvað hún er að segja, ég verð að segja að henni tókst það mjög vel. Við vorum m.a. að skoða óreglulegar sagnir þessa vikuna og fengum alltaf smá heimaverkefni að læra kannski 5 til 7 sagnir og svo spurði hún mann daginn eftir af einhverri af þessum sögnum, sem var reyndar vel stressandi en það slapp alltaf fyrir horn.
Í gær (laugardag) vöknuðum við fyrir allar aldir (held að klukkan hafi verið 9 eða eitthvað álíka!) og röltum út á rútustöð, stukkum uppí rútu og stefndum á ströndina. Sevilla er nefnilega ekki við strönd og það tekur rúmlega klukkutíma að keyra á ströndina en við ákváðum að gera okkur glaðan dag og fara saman, við íslendingarnir mínus Helga en plús sænska krúttið, Alexandra. Það var gómsæt sjávargola við ströndina svo sumir voru að vanmeta sólarstyrkinn. Tolli bar bara ekki á sig og brann því mjög illa, Jökull brann líka fjandi mikið á bakinu og bringunni og ég, sem virðist vera dóttir föður míns, náði mér í smá bruna í andliti þrátt fyrir að hafa verið dugleg að bera á mig. Svo þegar við komum heim elduðum við okkur mat og löbbuðum svo yfir til Höllu og Þórdísar rétt fyrir miðnætti. Þar var trúlegast versta bruna tilfellið. Halla gat varla labbað, það mátti varla anda á hana og henni var sjúklega kalt, sem verður að teljast afar óalgeng viðbrögð við bruna því við Jökull vorum að stikna. Halla lét þetta þó ekkert á sig fá og kom með okkur út. Við röltum yfir ánna að komast að því hvort spánverjar dansi bara ekkert og sem betur fer komust við að því að þeir eiga það til að lyfta sér upp og hrista sig duglega snemma á sunnudagsmorgnum, mikil hamingja!
Svo í dag er bara mikill letidagur, sofið út og kíkt smá í bók. Heima í sveitinni var önnur af tveim stórum smalahelgum núna um helgina og mér var mikið hugsað til heimahaganna og smalaleiðarinnar minnar því smalamennskur eru fyrir mér einn skemmtilegasti hluti ársins,miklu betra en afmæli,páskar og bolludagur. Geðheilsu minnar vegna verður þetta í fyrsta og eina skiptið sem ég missi af þeim!
Í dag eru líka akkurat tvær vikur þangað til að ég fer til Valencia að vinna á Hosteli og Agnes og Jökull fara til Kanaríeyja, allt mjög spennandi!
Af Elínu er það litla sem ég veit að frétta að hún hoppaði uppí flugvél til Tansaníu á fimmtudagsmorgni og er að koma sér fyrir í þorpinu og hver veit nema hún fari að komast í netsamband til að segja okkur sögur frá svörtustu Afríku!
Annars held ég að ég láti þetta duga í bili
Kær kveðja frá Spáni!
No hay comentarios:
Publicar un comentario