domingo, 23 de octubre de 2011

Björgun heimsins part one

Jæja eftir endalausa interneterfiðleika og nöldur og bið og vesen er ég loksins komin með smá aðgang að netinu svona einu sinni og einu sinni og í tilefni að því ætla ég droppa einu svolítið löngu bloggi hingað inn:) and here we go..

Jæja þá er maður búinn að vera hérna í Ilula city eða já okei kannski ekki city heldur meira smá þorp í fimm vikur og líður tíminn ekkert smá hratt.
Ég ætla að byrja að segja smá frá svona um það bil fyrstu tveimur vikunum og svo kemur meira seinna:)

Ferðin byrjaði á mega stressi og 4 kílóum í yfirvigt vegna skrilljón kríta, litabóka og lita, tannburstum og fleiru skemmtilegu handa krökkunum hérna og þakka ég Icelandair innilega fyrir að styðja mig svona skemmtilega mikið og rukka mig um þessi yndislegu 4 kíló. Jæja loksins komst ég til London og þá tók 7 tíma bið eftir á heathrow og var hún frekar lengi að líða þar sem ég gat bara tjekkað mig inn strax en ekki töskuna þannig að ég beið í 4 tíma með töskuna áður en ég gat tjekkað hana inn og sofnaði smá á kaffihúsi þarna á vellinum. Voða kósý allt saman. Jæja svo tók við beint flug til Dar es salaam. Það var mjög fínt, ég sat við hliðina á stelpu sem var líka að fara sem sjálfboðaliði nema til Kenýa og var hún frá ástralíu en bjó á írlandi og var búin að ferðast svo gott sem um allan heim.
10 tímum seinna lenti ég í Dar es salaam og þá tók við Visa eftirlitið. Ég var búin að heyra að margar stelpur hafa lent í veseni með visað sitt og var ég viss um að ég yrði ekki ein af þeim þar sem ég var með einhverskonar invitation letter frá United plante, sjálfboðaliða samtökunum hérna. En juju, ekki ætluðu þeir að hleypa mér í gegn nema ég myndi borga aftur fyrir visað sem ég ætlaði sko alls ekki að gera og átti ekki að gera og stóð ég fast á því að ég ætti ekki að gera það. En þeir sögðu þá að þeir vildu ekkert með mig hafa hérna og gæti ég bara komið mér aftur heim en að lokum kom kona frá United planet með alla pappíra og sýndi þeim í tvo heimana! Svo rölti ég bara í gegn, brosti til þeirra og veifaði bless. Konan sem sótti mig heitir Patience og er algjört yndi. Maðurinn hennar er prestur og eiga þau tvö börn, Princess og Precious. Já þau heita það bara. Hérna í Tanzaniu má heita hvað sem er.
Dar es salaam er brjáluð borg. Brjáluð umferð. Allir reyna að komast fram úr hverjum öðrum og bíba þeir allir hægri vinstri á hvorn annan. Þakka guði fyrir að hafa komist lifandi í gegnum þennan eina dag sem ég var þarna. Ég var skíthrædd og var bara uppi á herbergi þangað til það var komið að sækja mig morguninn eftir og farið með mig á rútustöðina. Þá tók við 8 tíma rútuferð til Ilula City. Ég sat við hliðina á yndis manni og spjölluðum við mikið saman. Á leiðinni fór ég í gegnum Mikumi national park þar sem ég sá fýla og gíraffa, buffalo, sebrahesta og fleiri skemmtileg dýr. Kallarnir í kringum mig skemmtu sér konunglega með því að benda mér á dýrin og hlægja að mér því mér fannst þetta sjúklega merkilegt (sem þetta er) en ekki fannst þeim það hah. Jæja svo átti rútan að stoppa í þorpinu masukanzi sem tilheyrir Ilula en bílstjórinn gleymdi mér og keyrði aðeins of langt. En þegar ég kom út úr rútunni, og vissi náttúrulega ekkert hvar ég var eða hvert ég átti að fara, en þá var maður sem er læknir á spítalanum hérna nálægt og sagði hann tveimur strákum sem voru á mótorhjólum hvert ég þyrfti að komast og fór ég aftan á eitt hjólið og taskan aftan á hitt. Hvorugur þeirra skyldi ensku og var ég alveg smá smeik um að þeir myndu bara ræa mér. Svo komum við að svona umferðarlöggum sem sögðu strákunum að stoppa nema sá sem ég var með gaf bara í og stakk af. Jájá hann gerði það bara. Svo keyrði hann útaf veginum og upp að einhverju húsi þar sem enginn var og þá var ég viss um að e-ð slæmt væri að fara að gerast. En svo sneri hann við eftir að ég var búin að nöldra e-ð og keyrði upp að IOC þar sem tekið var á móti mér og þá vissi ég að ég væri komin á réttan stað.
En já ég semsagt bý í IOC sem stendur fyrir Ilula orphan center og þar búa allir sjálfboðaliðar og gestir sem koma og svo 32 munaðarlausar stelpur á aldrinum 8-22 og eru þær allar hver annarri yndislegri. Þær eiga allar rosalega erfiðan bakrunn og eru nokkrar þeirra smitaðar HIV og margar orðið fyrir miklu ofbeldi eða nauðgun.
Morgunmatur er alltaf kl. 7.30, hádegismatur um 1 og svo kvöldmatur kl. 7.
Á virkum dögum borðum við með starfsmönnum sem vinna ýmist í garðinum eða í sambandi við fósturfjölskyldur eða eru kennarar í skólum á vegum IOP og er þá folk í vinnu sem býr til matinn en um helgar elda stelpurnar hérna í centerinu og hjálpum við stundum til með það.
Sjálfboðaliðar og gestir fá annan mat heldur en stelpurnar því Berit segir að við hvíta fólkið séum með öðru vísi bakteríu system í okkur og vill hún reyna að komast hjá því að við verðum veik. Þó svo að ég er búin að vera veik og skrapp á spítalann og svoleiðis skemmtilegt þar sem hlutir gerðust sem fara ekki hingað inn á veraldarvefinn.
En maturinn er samt mjög góður hérna. Við fáum ýmist kjöt, hrísgrjón, baunir, kartöflur og brauð og alls konar salat og ávexti sem ræktar er hérna úti í garði.

Á sunnudögum förum við alltaf í kirkju og fyrst fór ég og lene (20 ára sjálfboðaliði frá Dk) í Lutheran kirkjuna og var það smá spes. Hérna eru messurnar í þrjá tíma og allt á Swahili þannig að við vitum ekkert hvað er að gerast nema að það sé mögulega verið að tala um guð. En nú forum við yfirleitt í Methodist kirkju þar sem við eyðum 3 tímum í song og dans og smá bænir.

Fyrstu tvær vikurnar fóru í alls konar skrítin verkefni. Færa timbur og kassa  og endurraða hlutum og svo áttum við lene að mála klósettin hjá High school-inum sem er verið að byggja hérna fyrir ofan í hlíðinni en þá voru burstarnir ónýtir sem við áttum að nota og sagði Godlove (yfirmaðurinn þarna uppi frá)(oog já svo sagði hann okkur að nafnið hans væri kristilegt og að hann trúir á guð, didn’t see that one coming).. Allavega þá biðum við í tvo tíma eftir nýjum burstum sem komu svo bara ekkert þannig að við forum aftur til baka. Hérna gerist allt 10x hægar en heima. Ef eitthver atburður á að byrja kl. 9 þá byrjar hann kl. 11 og folk mætir bara þá. Það er bara þannig.
Svo fórum við í nokkrar útskriftir hjá Secondary school-um hérna í þorpunum í kring. Það er víst voða merkilegt að hafa hvíta manneskju viðstadda og vorum við alltaf heiðursgestir. Allir vilja snerta mann og taka í höndina á manni og svoleiðis skemmtilegt. Alls staðar er eins og maður sé sjúklega frægur og allir vinka manni og svoleiðis og svo kalla allir Mzungu sem þýðir hvít manneskja á eftir manni.
En já í útskriftunum sat ég hjá skólastjórunum og nokkrum vel völdum kennurum og fleira fólki sem er boðið. Svo af því að ég er hvít þá er ég full af vitneskju og fróðleik og alltaf þurfti ég að tala fyrir framan svona 1000 manns og segja hvað það væri mikilvægt að vera í skóla og hvað lífið byði uppá marga möguleika og allskonar svoleiðis. Útskriftin hjá mér var í uu 3 tíma minnir mig og fannst mér það sjúklega langt en hérna eru þær í um 6 tíma og jú eins og allt annað þá eru þær á Swahili. Fyrst fannst mér þetta mjög gaman og gaman að sjá þetta en svo var þetta orðið svolítið þreytt.
Annars er ég búin að vera að gera allskonar hluti þar á meðal sjá smá um bókhaldið hérna því einhvern veginn spurðist það út að ég væri búin að læra bókfærslu.. svo skrifuðum við Lene 1300 bank deposit slips handa öllum krökkum skráðum í IOP og svo erum við líka búin að vera að skrifa IOP fréttablað sem heitir HodiHodi og fer í öllu þorpin hérna í kring.
Svo viku eftir að ég kom komu Tinna sig, ásdís, carole frá dk og lisa frá sviss í heimsókn og forum við með þeim til Iringa og skoðuðum okkur aðeins um þar. Rosa gaman að hitta þær og alveg smá skrýtið að tala íslensku þar sem allt fer fram á ensku hérna eða Swahili og er ég byrjuð að hugsa á ensku.. mjög skrýtið allt saman.

oog já það er alltaf sól og svona 30 stiga hiti hérna nema einhverja tvo daga fyrir einhverjum vikum, þá var rigning. Lifilif!

En nú nenni ég ekki að skrifa meira enda er þetta orðið full langt en það kemur meira á fimmtudaginn eða föstudaginn þar sem ég við erum að fara í Safari á morgun! Vúíí eintóm gleði!:D

blesskex

1 comentario:

  1. gaman að heyra svona sögur frá þér! Skemmtu þér æðislega vel í safaríinu

    ResponderEliminar